Karellen

Foreldrasamstarf skólaárið 2017-18

Við leggjum metnað okkar í að foreldrum finnist þeir ávallt velkomnir í leikskólann. Það gerum við m.a. með því að setja upp ákveðna dagskrá þar sem við bjóðum foreldrum að koma og eiga ánægjulegar samverustundir með börnum sínum í leikskólanum:

September. Á haustin erum við með sérstakan fund fyrir foreldra þar sem farið er yfir dagskrá vetrarins og starfsemi leikskólans, sem og fróðleikur fyrir foreldra af ýmsum toga. Á þessum fundum hitta foreldrar deildastjóra, starfsfólk deildarinnar og aðra foreldra.

Október. Foreldrafélag leikskólans býður upp á danskennslu. Í síðustu kennslustundinni er foreldrum eldri árganganna boðið á danssýningu hérna í leikskólanum. Danstími hjá yngri börnum verður tekin upp á upptökuvél og sýndur í aðventukaffi fyrir foreldra í desember.

Desember. Við bjóðum foreldrum í aðventukaffi í byrjun desember og eru börnin þátttakendur í því með því að vera búin að baka fyrir foreldra sína. Börn og foreldrar eiga þá notalega stund saman í leikskólanum yfir piparkökum og kakói.

Janúar. Á bóndadaginn fær barnið að bjóða afa sínum og/eða pabba í morgunverð.

Febrúar. Á bolludaginn fær barnið að bjóða ömmu sinni og/eða mömmu í morgunverð.

Febrúar/Mars. Einu sinni á ári eru haldin formleg foreldraviðtöl þar sem foreldrar hitta kennara og eða deildarstjóra barnsins. Hægt er að óska eftir auka viðtölum hvenær sem er yfir veturinn.

Maí. Sveitaferð. Foreldrafélagið býður öllum bæði börnum og foreldrum í heimsókn í sveitina og tökum við langferðabíl öll saman. Við förum á virkum degi annað hvert ár. Næsta sveitaferð verður vorið 2019

Júní. Sumarhátíð leikskólans er á hverju ári og er í boði foreldrafélagsins. Útskrift elstu barna leikskólans er sama dag og fer fram við hátíðlega athöfn í sal leikskólans.

Við leggjum metnað okkar í að auglýsa allar uppákomur vel bæði með tölvupósti og Facebook síðum deildanna, einnig með því að hengja auglýsingar upp í fataklefum og á heimasíðu leikskólans.


© 2016 - 2023 Karellen