Karellen

Í Lundabóli viljum við kappkosta að bjóða börnum og fullorðnum upp á hollt og næringarríkt fæði og leggja drög að góðum matarvenjum barna. Þorskalýsi er gefið með morgunmat, þegar boðið er upp á ávaxtasafa er einungis um hreinan safa að ræða , grænmeti er alltaf með hádegisverði (ferskt/soðið) og ávextir eru í boði tvisvar á dag. Vatn er alltaf drukkið með hádegisverði og séð til þess að börnin hafi greiðan aðgang að drykkjarvatni. Öll brauð sem boðið er uppá, eru bökuð af matráði leikskólans.

Í eldhúsi Lundabóls starfar matráður Guðlaug Þóra (Gulla) og aðstoðarmaður hennar er Anna Margrét. Hlutverk starfsfólks eldhúss er að framreiða fjölbreyttan, hollan og næringarríkan mat þar sem þarfir barna eru hafðar að leiðarljósi. Ávallt er leitast við að vera með gæða hráefni og vinna allan mat frá grunni þ.e.a.s. engar unnar matvörur. Matseðlar eru gerðir til fimm vikna í senn og þá má sjá í forstofum deilda og á heimasíðu leikskólans. Við matseðlagerð er stuðst við handbók fyrir leikskólaeldhús sem gefin er út af Lýðheilsustöð og fylgt er eftir markmiðum Lýðheilsustöðvar m.a. um að draga úr sykur og saltneyslu barna. Einnig er stuðst er við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar hvað varðar hlutföll fæðunnar á matardisknum þ.e.a.s. að skipta fæðunni í þrjá jafna hluta á disknum.

Börn læra betur af því sem þau sjá og upplifa heldur en af því sem þeim er sagt. Þess vegna er mikilvægt að vera barninu fyrirmynd í fæðuvali, borða með þeim og kenna þeim um leið borðsiði og kurteisi. Það er tvennt sem einkennir framar öðru matarsmekk barna. Þau taka sætt bragð fram yfir annað ef það er á boðstólnum og þau eru smeyk við nýjar fæðutegundir. Það þarf að gefa börnunum tíma til að venjast nýjum fæðutegundum. Best er að bera þær fram nokkur skipti í röð, þá er líklegt að barnið fari smám saman að vilja borða þær. Því má heldur ekki gleyma að smekkurinn þróast að miklu leyti strax í æsku þannig að auðveldara er að venja börnin á holla fæðu, sértaklega ávexti, grænmeti og grófmeti á meðan þau eru ung.

Fjölbreytt mataræði með grófmeti og ríflegri neyslu af grænmeti og ávöxtum er æskilegasti kosturinn. Næringin skiptir máli fyrir heilbrigði tanna og beina. Holl fæða frá unga aldri gerir okkur kleift að mynda sterk bein sem betur geta staðist áföll síðar meir í lífinu. Tilvalið er að nota mikið af grænmeti við matseldina og bjóða einnig upp á það hrátt með matnum. Ef börn venjast því í uppvextinum að grænmeti sé haft með öllum mat, má ætla að grænmetisneysla verði hluti af lífsstíl þeirra.

© 2016 - 2024 Karellen