Karellen
news

Bókagjöf frá Menntamálastofnun

20. 11. 2023

Menntamálastofnun hefur gefið út bókina Orð eru ævintýri og markar þessi útgáfa þáttaskil þar sem að þetta er fyrsta námsefnið sem Menntamálastofnun gefur út fyrir leikskólastigið.

Bókin er gjöf til allra barna á Íslandi fædd 2019 og 2020, auk þess sem allir leikskólar fá afhent eintök af bókinni. Á næsta ári fá öll börn fædd 2021 bókina og svo nýr árgangur barna á 3 aldursári ár hvert á komandi árum. Um er að ræða myndaorðabók sem býður upp á tækifæri til að spjalla um orð daglegs lífs og efla orðaforða. Aftast í bókinni eru stuttar leiðbeiningar um notkun og hugmyndir að umræðuefnum. Bókin hefur að auki verið þýdd á nokkur tungumál og verður sú útgáfa á rafrænu formi á vef þannig að foreldrar af erlendum uppruna geta skoðað bókina með barninu sínu á móðurmálinu en lesið og heyrt orðin lesin á íslensku. Þannig geta börn af erlendum uppruna lært orðin á móðurmálinu og íslensku á sama tíma. Þá fylgja efninu gagnvirkir leikir og verkefni á vef og einnig kennsluleiðbeiningar fyrir starfsfólk leikskóla. Sérstakur hugmyndabanki um leiðir til að vinna með opnur og myndir bókarinnar verður gefinn út á vef Menntamálastofnunar.

Bókin var unnin í samvinnu Miðju máls og læsis hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, námsbrautar í talmeinafræði við Háskóla Íslands, leikskólanna Laugasólar og Blásala, Austurbæjarskóla og Menntamálastofnunar.

Það von okkar að bókin nýtist vel í starfi leikskóla og efli orðaforða og málskilning barnanna. Þá er einlæg von að bókin verði skoðuð sem oftast á heimilum og rætt um einstaka myndir sem geta verið uppspretta nýrra ævintýra og leikja. Kötturinn Kúri birtist á öllum opnum bókarinnar og gaman að spreyta sig á að finna hvar hann leynist.

© 2016 - 2023 Karellen