Karellen
news

Heimsókn í Árbæjarsafn

18. 12. 2018

Það er fátt sem er skemmtilegra en heimsókn í Árbæjarsafn á aðventunni. Við fengum frábæra leiðsögn um safnið og fræddumst heilmikið um það hvernig jólin voru haldin hátíðleg í gamla daga. Gömlu íslensku jólasveinunum voru líka gerð góð skil og auðveldara er að skilja nöfnin þeirra og Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum þegar maður er inni í burstabæ. Undarlegast þótti krökkunum þó að sjá hvernig heimilisfólkið í Árbæ fór í jólabaðið. Í pínulitlum bala inni í fjósi. Þau skildu nú bara alls ekki hvernig unglingarnir eða fullorðna fólkið komst í svona lítinn bala og fannst lyktin í fjósinu og steinagólfið ekki alveg bestu aðstæðurnar til að vera í þegar maður baðar sig.

Allir fylgdust vel með og vissu alveg heilmargt um það hvernig jólin voru haldin í gamla daga. Safnaverðinum fannst merkilegt að heyra að við hefðum prófað að gera okkar eigið tólgarkert og lýsislampa.

Við enduðum svo á því að fara stutta stund inni í Árbæjarkirkju og syngja jólalag.

© 2016 - 2024 Karellen